Hoppa yfir valmynd

Ársreikningur Vesturbyggðar 2011

Málsnúmer 1204041

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

16. maí 2012 – Bæjarstjórn

Lagður fram ársreikningur Vesturbyggðar og stofnana hans fyrir árið 2011 ásamt skýrslu löggiltra endurskoðenda sveitarfélagsins til seinni umræðu.
Til máls tóku: AJ, forseti og bæjarstjóri.
Bæjarstjórn ítrekar bókun sína frá 246.fundi sínum 2. maí sl.: ”Jákvæð merki eru um rekstrarbata hjá sveitarfélaginu og er niðurstaða ársreiknings fyrir árið 2011 viðunandi. Gerð var mikil niðurskurðarkrafa hjá stofnunum sveitarfélagsins í fjárhagsáætlun síðasta árs og aftur í aðgerðaráætlun með ráðgjöfum Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga sl. haust. Frávik hjá deildum eru ekki veruleg nema hjá Fráveitu og skýrist það einna helst af áralöngu viðhaldsleysi sem skýrir tíðar bilanir, bæði á Patreksfirði og Bíldudal sem hefur leitt til umfangsmeiri viðgerða en áætlanir hafa gert ráð fyrir. Einnig er fjármagnskostnaður öllu hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun síðasta árs vegna hærri vaxta og meiri verðbólgu en spár gerðu ráð fyrir. Þá eiga þær sparnaðaraðgerðir sem gripið var til á haustdögum og endurskipulagning sem farið var í í kjölfarið einnig eftir að skila sér að fullu, en stöðugt er unnið að aukinni hagræðingu í rekstri, meira aðhaldi og aga í útgjöldum.
Helstu lykiltölur úr ársreikningi samstæðu Vesturbyggðar:
·       Niðurstaða rekstrar er jákvæð um 52,3 millj.kr. og skuldahlutfall nemur 173,8% í árslok 2011. Þetta hlutfall var 187,2% í árslok 2010.
·       Bókfærðar heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins hafa á árinu 2011 lækkað um 62,4 milljónir króna.
·       Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2011 námu rekstrartekjur A og B hluta 743,8 millj. kr. samanborið við 724,1 millj. kr. á árinu 2010. Hækkun milli ára nemur því 2,7%.
·       Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld, annar rekstrarkostnaður og afskriftir námu á árinu 739,1 millj. kr. en voru 730,0 millj. kr. á árinu 2010. Hækkun frá fyrra ári nemur 1,3%.
·       Í ársreikningi kemur fram að  mismunur tekna og gjalda Aðalsjóðs er jákvæður um 74,5 millj. kr. og Eignasjóðs jákvæður um 23,3 millj. kr.
·       Hafnarsjóður, Vatnsveita, Fráveita, Félagslegar íbúðir og Fasteignir Vesturbyggðar ehf. teljast til B hluta sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaða B hluta í heild sinni er neikvæð um 45,4 millj. kr.
·       Fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld A og B hluta árið 2011 námu 47,6 millj. kr. en fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 224,8 millj. kr. árið 2010. Þetta skýrist af niðurfellingu á láni að upphæð 140 millj.kr. vegna kaupa á stofnfjárbréfum í SPKEF.
·       Samkvæmt sjóðstreymisyfirliti nam veltufé frá rekstri A og B hluta 35,3 millj. kr. á árinu 2011 samanborið við 12,0 millj. kr. á árinu 2010. Að teknu tilliti til breytinga á rekstrartengdum eignum og skuldum nam handbært fé frá rekstri A og B hluta um 37,9 millj. kr. samanborið við neikvætt handbært fé frá rekstri 13,2 millj. kr. á árinu 2010.
·       Fjárfestingarhreyfingar (útborganir umfram innborganir) á árinu í A og B hluta námu 16,9 millj. kr. samanborið við 17,9 millj. kr. á árinu 2010.
·       Afborganir langtímalána umfram lántökur námu 8,7 millj. kr. samanborið við lántökur umfram afborganir 3,1 millj. kr. árið áður.
·       Handbært fé hækkaði um 12,3 millj. kr. á árinu og nam það 40,2 millj. kr. í árslok 2011.“
Ársreikningur bæjarsjóðs Vesturbyggðar og stofnana hans fyrir árið 2011 samþykktur samhljóða.




8. maí 2012 – Bæjarráð

Lagður fram ársreikningur Vesturrbyggðar 2011 til seinni umræðu í bæjarráði. Ársreikningi vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn.




27. apríl 2012 – Bæjarráð

Lagður fram áritaður ársreikningur Vesturbyggðar 2011 af endurskoðanda til kynningar í bæjarráði. Ársreikningi vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.