Um Vesturbyggð
Vesturbyggð er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum. Núverandi mynd þess varð til við sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps í maí 2024. Vesturbyggð hin fyrri varð til við sameiningu fjögurra sveitarfélaga árið 1994, það er Barðastrandarhrepps, Rauðasandshrepps, Bíldudalshrepps og Patrekshrepps.
Til Vesturbyggðar teljast Birkimelur á Barðaströnd, Bíldudalur, Tálknafjörður og Patreksfjörður og sveitirnar Barðaströnd, Breiðavík, Hænuvík, Ketildalir, Látrar, Rauðisandur og Suðurfirðir.
Fyrrum voru sex hreppar á suðursvæði Vestfjarða: Barðastrandarhreppur, Ketildalahreppur, Patrekshreppur, Rauðasandshreppur, Suðurfjarðahreppur og Tálknafjarðarhreppur. Árið 1987, þann 1. júlí, voru Ketildalahreppur og Suðurfjarðahreppur sameinaðir í Bíldudalshrepp og þann 11. júní 1994 sameinuðust Bíldudalshreppur, Barðastrandahreppur, Patrekshreppur og Rauðasandshreppur í Vesturbyggð. Sameiningartillagan var felld í kosningum á Tálknafirði árið 1994 og aftur árið 2005.
Haustið 2023 var kosið á ný um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps og var þá sameiningin samþykkt.
Bæjarstjórar í Vesturbyggð
- Gerður Björk Sveinsdóttir 2024-
- Þórdís Sif Sigurðardóttir 2022–2024
- Rebekka Hilmardóttir, 2018–2022
- Ásthildur Sturludóttir, 2010–2018
- Friðbjörg Matthíasdóttir, afleysing, 2016–2017
- Ragnar Jörundsson, 2006–2010
- Guðmundur Guðlaugsson, 2004–2006
- Brynjólfur Gíslason, 2002–2004
- Jón Gunnar Stefánsson, 1998–2002
- Jón Gauti Jónsson, 1997–1998
- Gísli Ólafsson, 1995–1997
- Ólafur Arnfjörð, 1994–1995
Byggðamerki Vesturbyggðar
Athugið að ekki hefur verið ákveðið hvert byggðamerki Vesturbyggðar hinnar nýrri verður, þangað til verður notast til jafns við byggðamerki Vesturbyggðar hinnar fyrri annars vegar og Tálknafjarðarhrepps hins vegar.
Byggðamerki Vesturbyggðar var valið eftir auglýsingu um nýtt merki 1994. Merkið var upprunalega teiknað af Halldóri Eyjólfssyni, grafískum hönnuði.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar auglýsti eftir tillögum að myndrænu tákni sem nota mætti sem uppistöðu í byggðamerki fyrir Vesturbyggð. Hugmyndin átti að tengjast sögu eða sérkennum byggðarlagsins. Niðurstaðan var merki sem var upprunalega teiknað af Halldóri Eyjólfssyni, grafískum hönnuði.
Táknin sem koma fram í merkinu eru Hrafna-Flóki ásamt hröfnunum þremur er varða söguna eins og segir í Landnámu: „Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd.“ Í sömu sögu segir einnig: „Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin, fjörð fullan af hafísum, því kölluðu eir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.“ Látrabjarg, vestasti oddi Evrópu, eitt af einkennum byggðarlagsins er í forgrunni og minnir á sambúð manns og náttúru og nýtingu landgæða. Blár sjór táknar hreinleika hafsins og sjósókn við Vesturbyggð.
Árið 2018 var merkið endurteiknað til þess að standast nútímakröfur um notkun á stafrænum miðlum. Merkið var um leið stíliserað til að falla betur að nýrri heildarásýnd sveitafélagsins, sem var tekin upp á sama tíma. Einnig voru ákveðnir þættir í merkinu uppfærðir til að standast betur kröfur Einkaleyfastofu fyrir skráningar á byggðamerkjum. Ný teikning merkisins er teiknuð á hönnunarstofunni Kolofon.
Byggðamerki Vesturbyggðar má hlaða niður hér til hliðar. Þar má finna útgáfur af merkinu fyrir helstu prent- og skjánotkun, í fullum lit og einlit.
Byggðamerki Tálknafjarðarhrepps
Athugið að ekki hefur verið ákveðið hvert byggðamerki Vesturbyggðar hinnar nýrri verður, þangað til verður notast til jafns við byggðamerki Vesturbyggðar hinnar fyrri annars vegar og Tálknafjarðarhrepps hins vegar.
Byggðamerki Tálknafjarðarhrepps sýnir landslag fjarðarins, með Sandodda fyrir miðju. Íbúar Tálknafjarðarhrepps greiddu atkvæði um tillögur að byggðamerki árið 2002.