Hoppa yfir valmynd

Skilabréf og álit samstarfsnefndar um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar

Málsnúmer 2306058

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

21. júní 2023 – Bæjarstjórn

Í febrúar 2023 samþykktu sveitarstjórnir Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga. Samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu til sveitarstjórna með skilabréfi dags. 14. júní ásamt fylgiskjölum.

Samstarfsnefndin kom saman á níu bókuðum fundum. Samstarfsnefnd skipaði sjö starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð. Minnisblöð frá vinnu starfshópa eru aðgengileg á vefsíðu verkefnisins, www.vestfirdingar.is, og hefur verkefnið verið kynnt á íbúafundum með virku samtali við íbúa.

Það er álit samstarfsnefndar að fram skuli fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu sveitarfélaganna. Lagt er til að atkvæðagreiðslu verði lokið 28. október 2023. Jafnframt leggur nefndin til að samstarfsnefnd verði falið að undirbúa atkvæðagreiðslu og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum sveitarfélaganna.

Til máls tók: Varaforseti

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir að atkvæðagreiðsla um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar verði lokið 28. október 2023 og felur samstarfsnefnd að undirbúa atkvæðagreiðsluna og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum.

Bæjarstjórn skorar á Alþingi og ríkisstjórn að hefja nú þegar undirbúning við gerð jarðgangna um Mikladal og Hálfdán í einni framkvæmd enda er sú framkvæmd forsenda fyrir farsælli sameiningu sveitarfélaganna. Það kom skýrt fram hjá íbúum að forsenda þess að sameining skili árangri sé að svæðið myndi einn búsetu-, atvinnu- og þjónustukjarna þar sem hægt er að ferðast milli byggðakjarna á öruggan hátt allan ársins hring. Vakin er athygli á því að jarðgöng um Mikladal og Hálfdán eru einnig í samræmi við stefnu stjórnvalda og Alþingis um að útrýma hættulegum fjallvegum, í samræmi við loftslagsstefnu, styður við jafnrétti á landsbyggðinni sem og uppbyggingu fiskeldis á svæðinu svo fá ein dæmi séu nefnd. Bæjarstjórn leggur til að hönnun jarðgangnanna verði sett á dagskrá fyrsta hluta samgönguáætlunar og að framkvæmd jarðgangnanna verði á öðrum hluta samgönguáætlunar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur undir mat samstarfsnefndar, að undangengnu umfangsmiklu samráði og greiningu, að það væri framfaraskref að sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag. Þannig verður til öflugt sveitarfélag með sterkari rekstrargrundvöll sem getur bætt þjónustu við íbúa, með aukinn slagkraft.

Samþykkt samhljóða